Skip to main content

Sagan

Í upphafi má geta þess að Flugfélag Íslands auglýsti í dagblöðum árið 1928 eftir mönnum sem vildu fara til Þýskalands og læra flugvirkjun á kostnað félagsins.​

Björn Olsen, Gunnar Jónasson og Jóhann Þorláksson, voru úr stórum hóp umsækjanda valdir og lögðu þeir síðan stund á flugvirkjanám í Berlín í rúmt ár. Þeir komu til starfa á Íslandi sumarið 1929. Þeir þrír höfðu lært járnsmíði og lokið sveinsprófi í greininni, en það mun vera ástæða þess hversu námstími þeirra var styttur. Á eftir þeim þremur voru allmargir ráðnir til starfa hér á landi. Fóru margir og lærðu flugvirkjun erlendis, enda umsvif í flugrekstri að aukast á þessum árum.

Saga Flugvirkjafélagsins 1947 – 1956

Þriðjudaginn 7. janúar 1947 var boðað til fundar að Hótel Winston á Reykjavíkurflugvelli. Tilefni fundarboðsins var umræða um stofnun félags flugvirkja á Íslandi. Á fundinn mættu rúmlega 20 manns. Fundarstjóri var kosinn Jón N. Pálsson og fundarritari Ingólfur Guðmundsson. Í lok fundarins var kosin þriggja manna nefnd til að gera drög að lögum væntanlegs félags og vinna að öðrum undirbúningi stofnunar þess.

Þann 21. janúar 1947 mættu síðan á Hótel Winston 33 menn til að ræða tillögur undirbúningsnefndarinnar og samþykktu síðar félagslög, en fyrir fundinn lágu drög að lögum væntanlegs félags. Þennan dag var Flugvirkjafélag Íslands stofnað. Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir: Jón N. Pálsson, formaður, Dagur Óskarsson, ritari og Sigurður Ingólfsson, gjaldkeri. Þrír varamenn voru einnig kosnir, þeir Ásgeir Magnússon varaformaður, Sigurður Ágústsson vararitari og Sigurður Erlendsson varagjaldkeri. Endurskoðendur félagsins voru kosnir Gunnar Valdimarsson og Sveinbjörn Þórhallsson.

Fyrsta stjórn Flugvirkjafélags Íslands kosin á stofnfundi félagsins, 21. janúar 1947

​Þá voru einnig lögð fram tillögur að lögum félagsins og samþykkt eftir talsverðar umræður og breytingar síðan færðar í gjörðarbók félagsins og undirrituðu síðan félagsmenn nafn sitt um að þeir vildu hlýða lögum og reglum þess samkvæmt 5.gr.

Í upphafi gekk baráttan meðal annars um réttindi í flugvirkjun og var samþykkt ályktun á félagsfundi 30. janúar 1947 um að senda skriflega áskorun til “Flugferðaeftirlits Ríkisins” þess efnis að hraða veitingu réttinda til flugvirkja og einnig að semja próf fyrir þá sem óska þess að ljúka námi í flugvirkjun hér heima. Á þessum tíma gátu allir sem að viðgerðum á flugvélum unnu gengið í félagið, hvort heldur þeir voru útlærðir eða ekki.

​Fram kom á félagsfundi 17. apríl 1947 tillaga þess efnis að sækja um aðild að  Alþýðusamband Íslands, þrátt fyrir ósk stjórnenda flugfélaganna hér um að FVFI  gengi ekki í Alþýðusamband Íslands. Báru stjórnir flugfélaganna tveggja því fyrir að hætta væri á að starfsemi þeirri gæti beðið tilfinnanlegan hnekk í verkföllum, án þess að flugvirkjar ættu þar þátt. Tillagan var feld með 18 atkvæðum gegn 1.  Á þessum sama fundi bar Sigurður Erlendsson fram tillögu um að 3ja manna nefnd  semdi uppkast að kjarasamningi fyrir félagsmenn og voru þeir Ásgeir Magnússon, Jón N. Pálsson og Dagur Óskarsson valdir í nefndina.  Aðbúnaður var að skornum skammti og vakti Sigurður Ingólfsson máls á nauðsyn þess að fá flugskýlinn upphituð, bæði frá heilbrigðissjónarmiði og því að það myndi bæta afkastagetu manna við störf. Stjórninni var falið að ræða þetta við flugfélögin.

​Fyrsta uppkast af kjarasamningi var kynntur á félagsfundi 27. maí 1947, en þar voru mótaðar  tillögur frá FVFÍ.
Fyrsti viðræðufundur um kjarasamning við flugfélögin ( atvinnurekendur ) var haldin að Hótel Winston 5. september 1947. Fyrir hönd FVFI, mættu þeir Ásgeir Magnússon, Jón N. Pálsson, Dagur Óskarsson og þeim til aðstoðar Sigurður Ágústsson ritari og Olivert Thorsteinsson sem var jafnframt fundarstjóri. Af hálfu atvinnurekenda mætti Örn Ó Johnson framkvændastjóri Flugfélags Íslands, en auk hans var fulltrúa Loftleiða og Flugvirkjans boðaðir.  Örn gat þess að gagntillögur þær er hann hefði meðferðis væru teknar saman af honum og Hjálmari Finnssyni, framkvæmdastjóra Loftleiða.

​Gerð kjarasamninga gekk erfiðlega vegna þess að ekki var farið í verkfall. Það hefði bitnað á Flugfélagi Íslands en ekki Loftleiðum, því að margir erlendir flugvirkjar unnu hjá Loftleiðum og flugvirkjun var ekki viðurkennd  iðngrein hér á landi á þessum tíma.  Fyrstu samningar tókust og voru samþykktir á félagsfundi 7. desember 1947.

​Á félagsfundi haldin í félagsheimili V.R. í Reykjavík 17. október 1947 var samþykkt tillaga  Jóns N. Pálssonar að gera þyrfti uppdrátt að merki félagsins.

​Aðalfundur flugvirkjafélagsins var haldin að Hótel Ritz 1. marz 1948. þar var samþykkt tillaga að fela stjórninni að sækja um aðild að ASÍ  með 16 atkvæðum gegn 6.

Á framhalds-aðalfundi 30. marz 1948 sem haldin var að Hótel Ritz kom fram tillaga um að kjósa 5 manna trúnaðarráð en tillagan var felld með 20 atkvæðum gegn 3.

Fram kom á fundi 6. ágúst 1948 að félaginu hefur verið veitt inntaka í ASÍ, þó með þeim skilyrðum að nokkrar breytingar yrðu á lögum félagsins. Var málinu þá frestað.

Þá var rædd tillaga um þátttöku félagsins í útgáfu  “Flugs”  tímarit um flugmál að ¼ hluta en aðrir voru, Félag Íslenskra einkaflugmanna, Félag Íslenskra Atvinnuflugmanna og Svifflugfélag Íslands. Þá yrði jafnframt Flugmálafélag Íslands endurstofnað að 1/5 á móti fyrrnefndum félögum.  Tillaga þessi var samþykkt með öllum samhljóða atkvæðum og voru þeir Jón N. Pálsson og Ásgeir Magnússon samþykktir í ritnefnd að hálfu FVFI.

​Á fundi 26. ágúst 1948 í húsakynnum VR fyrir lá uppkast að lagabreytingum  vegna aðildar flugvirkjafélagsins að ASÍ, og voru þær allar samþykktar, en meðal skilyrða var að FVFÍ hefði trúnaðarmannaráð sem kosið yrði á næsta félagsfundi.

​Á félagsfundi 21. september 1948 var Sigurður Ingólfsson kosinn fulltrúi FVFI á þing ASI og Dagur Óskarsson til vara.
Þá var jafnframt kosið trúnaðarmannaráð en þeir  Dagur Óskarsson, Sigurður Ágústsson, Óskar Pétursson, Ólafur Alexandersson hlutu kosningu, en varamenn þeir Ásgeir Samúelsson, Jón Gunnlaugsson, Sveinbjörn Þórhallsson og Ingólfur Guðmundsson.

Hlutverk trúnaðarmannaráðs var að starfa með samninganefnd FVFI, en félagsfundur hafði þó endanlega ákvörðunarrétt.
Mestur félagslegur ágreiningur í upphafi, var auk launamála og krafna um bættan aðbúnað, að íslenskir flugvirkjar hefðu forgang um vinnu hérlendis gagnvart erlendum starfsbræðrum.

​Halldór Sigurjónsson hefur undanfarið haft umsjón með skóla fyrir nemendur í flugvirkjun. Á stjórnarfundi 15. nóvember 1948 kom fram að farið hefði verið fram á það við stjórn FVFI að tilnefna einn mann sem fulltrúa félagsins til þess að hafa eftirlit með skóla þessum ásamt einum fulltrúa frá flugráði og var Sigurður Ágústsson tilnefndur.

​Fyrsti kjarasamningur FVFI við Flugfélag Íslands og Loftleiði voru samþykktir á félagsfundi 6. janúar 1949  í félagsheimili VR.  Fjórir menn voru valdir til að sjá um að samningum verði fylgt eftir í framtíðinni, en þeir voru Eysteinn Pétursson og Jón Þorkelsson fyrir hönd starfsmanna Flugfélags Íslands og Viggó Einarsson og Haraldur Hagan fyrir hönd starfsmanna  Loftleiða.

Verkfall hófst 1. janúar 1950 og stóð til loka apríl eða í um 4 mánuði

Á aðalfundi 12. febrúar 1950 voru kosnir í nefnd, Dagur Óskarsson, Jón N. Pálsson, Einar Sigurvinsson til að vinna að því með Iðnráði að flugvirkjun yrði viðurkennd sem sérstök iðngrein. Einar Sigurvinsson var áheyrnarfulltrúi á Iðnþingi í nóvember1950. Á fundi 29. september 1952 ræðir Jón Pálsson um löggildingu.

Á fundi 13. marz 1950 kom fyrirspurn frá Degi Óskarssyni hvort ekki væri rétt að flugvirkjar fengju mann eða fulltrúa í flugráð.

Sjúkrasjóður FVFI var stofnaður eftir gerð kjarasamninga 1950 og reglugerð sjóðsins samþykkt 19. maí 1950.

Á aðalfundi 4. febrúar 1951 var stjórninni veitt heimild til að verja 3.000,-kr. til kaupa á skrifborði sem síðan ætti að varðveitast á heimili einhvers félagsmanns, en í því ætti að geyma öll gögn félagsins.

Trúnaðarmenn á vinnustöðum voru fyrst kosnir 11. febrúar 1952, en þeir voru Gunnar Valdimarsson hjá Flugfélagi Íslands og Hörður Eiríksson hjá Loftleiðum en Alfred Olsen tók við 21. október  sama ár.

Tillag frá Gísla Sigurjónssyni um merki félagsins var samþykkt 27. október 1950
( en Halldór Sigurjónsson mun hafa teiknað merkið )

Á aðalfundi 9. febrúar 1953 var tillaga frá Ásgeiri Samúelssyni um gerð borðfána samþykkt.

Á fundi 23. marz 1954 kom í fyrsta sinn bréf frá Iðnráði Reykjavíkur um að kjósa menn í prófnefnd, og voru eftirtaldir valdir, þeir Sveinbjörn Þórhallsson, Halldór Þorsteinsson, Gunnar Valdimarsson og til vara Ásgeir Samúelsson og Baldur Bjarnasen.

Á félagsfundi 17. janúar 1955 var tillaga stjórnar samþykkt með öllum atkvæðum um að styðja flugmenn í sanngjarnri kjaradeilu á gagnkvæmum grundvelli.

28. janúar 1955 kemur fram að Loftleiðir h/f bjóði íslenskum flugvirkjum vinnu hjá “Braathens  SAFE” í Noregi

22. október 1955 var samþykkt tillaga Sigurðar Ágústssonar að stjórnin athugi að fá fulltrúa í flugráð og á sama fundi fjallaði Jón A. Stefánsson hugmynd að stofnun lífeyrissjóðs í samvinnu með starfsmannafélagi Flugfélags Íslands (SMFI) og starfsmannafélagi Loftleiða (SML).

30. nóvember 1955 var Viggó Einarsson kosin í Iðnráð.​

30. nóvember 1956 voru Ólafur Agnar Jónasson og Sveinbjörn Þórhallsson beðnir að kanna og undirbúa stofnun lífeyrissjóð fyrir flugvirkja.