Skip to main content

Lög Flugvirkjafélags Íslands

I. kafli.

Nafn F.V.F.Í. og tilgangur, inntökuskilyrði og úrsögn.

1. gr.

Félagið heitir Flugvirkjafélag Íslands, skammstafað F.V.F.Í. Félagið er landsfélag og félagssvæði þess er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. 

Tilgangur F.V.F.Í. er:
a)    Að vernda hagsmuni íslenskra flugvirkja/flugvélavirkja/flugvélatækna (hér eftir nefndir „flugvirkjar“)
b)    Að efla góða samvinnu þeirra og vinna að bættum kjörum þeirra, réttindum og vinnuskilyrðum.
c)    Að stuðla að ráðningu atvinnulausra félaga.
d)    Að stuðla að framförum í flugvirkjun/flugvélavirkjun/flugvélatækni (hér eftir nefnt „flugvirkjun“)
e)    Að tryggja að flugvirkjar kunni sem best sitt starf og hafi sem víðtækasta þekkingu á öllu sem að flugvirkjun lýtur.     

Félagið gerir kjarasamninga fyrir félagsmenn sína, sem við greinina starfa, og kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum og öðrum, að því er varðar hagsmuni félagsmanna, starf þeirra og starfskjör. 

Aðalkjarasamningur F.V.F.Í. hverju sinni skal vera sá kjarasamningur sem félagið gerir og gildir um starfskjör flestra félagsmanna F.V.F.Í.

3. gr. 

Fullgildir félagsmenn geta þeir einir orðið sem hafa sveinsbréf í flugvirkjun. 

Þeir skulu gerast aukafélagar meðan á reynslutíma þeirra stendur sem:
a)    a)Lokið hafa skólagöngu með burtfararprófi frá viðurkenndum flugvirkjaskóla og hafa heimild mennta- og menningarmálaráðuneytis um undanþágu frá námssamningi.
b)    b)Stunda nám í flugvirkjun og eru á námssamningi vegna þess, sem er viðurkenndur af stjórn FVFÍ.

Eftir að reynslutími er liðinn og viðkomandi hefur þreytt sveinspróf samkvæmt reglugerð þar um hefur hann ekki rétt til að vera aukafélagi áfram. Aukafélagar greiða fullt félagsgjald, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum, en einungis atkvæðarétt varðandi kaup og kjör, enda njóta þeir sjóða F.V.F.Í. samkvæmt reglugerðum þeirra til jafns við aðra félagsmenn. 

Heimilt er að taka inn aukafélaga, svo sem erlenda flugvirkja sem hafa EASA Part 66 skírteini með B og/eða C áritanir.

Heimilt er að taka inn sem aukafélaga, flugvirkja sem lokið hafa skólagöngu með burtfararprófi frá viðurkenndum flugvirkjaskóla, en hafa ekki lokið sveinsprófi í iðninni og starfa ekki í iðngreininni. Slíkir aukafélagar greiða á mánuði hálft félagsgjald, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum, en ekki atkvæðisrétt. Stjórn F.V.F.Í. fjallar um umsóknir um aukaaðild, en trúnaðarráð getur sett nánari reglur um aukafélaga á hverjum tíma.

4. gr. 

Umsækjandi um félagsaðild skal fylla út skriflega inntökubeiðni og skal henni fylgja burtfararskírteini í flugvirkjun og/eða fullgilt EASA Part 66 skírteini, auk sveinsbréfs. Stjórn F.V.F.Í. fjallar um umsóknir um aðild.

5. gr.  

Hverjum fullgildum félagsmeðlim skal gert kleift að nálgast félagsskírteini annaðhvort rafrænt, eða á kortaformi á skrifstofu félagsins, svo hann geti sannað félagsréttindi sín. Skírteini skulu merkt með kennitölu félagsmanns.

6. gr. 

Félagsmenn geta sagt sig úr félaginu að eigin ósk og skulu þeir þá vera skuldlausir og eigi í óbættum sökum við félagið. Úrsögn skal vera skrifleg og skal hún afhendast skrifstofu F.V.F.Í. Óheimilt er að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmeðlima FVFÍ eða annara stéttarfélaga, sem lagt hafa niður vinnu vegna deilu.

II. Kafli.

Um réttindi félagsmanna og skyldur, réttindamissi og brottrekstur.

7. gr.  

Réttindi fullgildra félagsmanna eru:                                                                  
a)    a)Málfrelsi, tillöguréttur og atkvæðaréttur á félagsfundum samkvæmt fundarsköpum F.V.F.Í.
b)    b)Kjörgengi til trúnaðarstarfa innan F.V.F.Í., þó með þeim undantekningum sem getið er um í 8. Gr.
c)    c)Réttur til aðildar að Sjúkrasjóði F.V.F.Í.

8. gr.

Félagsmenn sem látið hafa af störfum vegna aldurs hafa málfrelsi, tillögurétt en ekki kosningarétt á félags- og aðalfundum F.V.F.Í. Njóta þeir félagsmenn sömuleiðis ekki kjörgengis í félaginu.


9. gr.

Hver sá félagsmaður F.V.F.Í. sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir vinnuveitanda skal ekki á sama tíma gegna trúnaðarstörfum fyrir F.V.F.Í., svo sem sitja í stjórn, samninganefnd, trúnaðarráði eða samstarfsnefnd. Einnig er honum óheimilt að sitja fundi F.V.F.Í. þar sem kjaramál eru á dagskrá og hefur jafnframt ekki atkvæðisrétt í kjarasamningum eða stjórnarkjöri.Trúnaðarstörf teljast til dæmis eftirtalin störf: Stjórnar-, varastjórnar-, tæknistjóra- eða deildarstjórastörf. Leiki einhver vafi á því hvort að starf sem að félagsmaður gegnir falli undir trúnaðarstörf skal stjórn F.V.F.Í. hafa úrslitavald þar um.

10. gr. 

Skyldur félagsmanna eru:
a)    Hlýða lögum F.V.F.Í., fundarsamþykktum og samþykktum í öllum greinum.
b)    Gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, þó getur starfandi stjórnarmeðlimur, sem verið hefur 4 ár eða lengur í stjórn samfleytt, skorast undan stjórnarstörfum næstu 4 ár.
c)    Sýna fullkomna þagmælsku um það sem gerist á félagsfundum.
d)    Starfa ekki með þeim í iðninni sem ekki eru meðlimir í F.V.F.Í. eða eru réttindalausir, nema félagið hafi veitt undanþágu til þess.
e)    Greiða áskilin gjöld til F.V.F.Í. á réttum gjalddaga.
f)    Að gefa stjórn F.V.F.Í. upplýsingar um hvers konar tilraunir atvinnurekanda til að brjóta eða sniðganga kjarasamninga.
g)    Aðhafast ekkert það sem er félaginu til tjóns eða álitshnekkis.
h)    Hafa félagsskírteini sitt tiltækt þegar þess er krafist af F.V.F.Í.

11. gr.

F.V.F.Í. hefur trúnaðarmann á hverjum vinnustað samkvæmt lögum á vinnumarkaði. Trúnaðarmenn skulu hafa eftirlit með að lögum F.V.F.Í., samþykktum og samningum sé hlýtt. Að öðru leyti fer um starfsemi, réttindi og skyldur trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningi F.V.F.Í.

12. gr. 

Samninganefndir skulu vera starfandi í F.V.F.Í. og eru skipaðar af stjórn F.V.F.Í. til viðræðna um gerð kjarasamninga hverju sinni. Stjórn F.V.F.Í. skipar einn félagsmann sem formann allra samninganefnda. Samninganefndir koma fram fyrir hönd F.V.F.Í. við gerð kjarasamninga. Stjórn er heimilt að kalla fleiri félagsmenn til setu í samninganefndum eftir því sem þurfa þykir. 

13. gr.

Félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 3 mánuði eða meira nýtur ekki félagsréttinda samkvæmt 7 gr. Hafi lögboðin gjöld ekki borist í 6 mánuði er félagsmanni sjálfkrafa vikið úr félaginu. Félagsmaður telst ekki skulda gjöld til félagsins hafi iðgjöld verið innheimt af launagreiðanda af launum hans skv. launaseðli en ekki skilað. Félagsréttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd. Stjórn félagsins hefur heimild til að gefa eftir félagsgjöld samkvæmt 38. gr. FVFÍ sendi félögum áminningu með tölvupósti eða í appinu séu iðgjöld ógreidd í 2 mánuði.

14. gr.

Ef félagsmaður gerist sekur um brot á lögum F.V.F.Í. eða hagsmunum þess og samþykktum, getur stjórn F.V.F.Í. beitt eftirfarandi refsiákvæðum:

a)    Veitt félagsmanni áminningu innan F.V.F.Í.
b)    Svipt félagsmann tillögurétti og/eða fundarsetu um tiltekinn tíma.
c)    Svipt félagsmann rétti til þess að gegna trúnaðarstörfum í þágu F.V.F.Í. um ákveðinn tíma.
d)    Vikið félagsmanni úr félaginu um lengri eða skemmri tíma. 

Úrskurði stjórnar F.V.F.Í. má skjóta til félagsfundar, sem hefur endanlegt úrskurðarvald og er bindandi fyrir félagsmenn.

15. gr.

Eigi F.V.F.Í. í verkfalli, sem löglega hefur verið boðað til, ber hverjum félagsmanni, sem verkfallið nær til, að leggja skilyrðislaust niður alla vinnu. Stjórn F.V.F.Í. ber skylda til að beita refsiákvæðum 14. gr. gegn þeim sem brjóta gegn þessari grein.

16. gr.

Flugvirkjafélag Íslands skal vera félagsmanni innan handa í málum þar sem hann er valdur að atviki og/eða slysi atvinnu sinnar vegna. Stjórn FVFÍ skipar atvikanefnd sem metur málsatvik og annast slík mál.

III. Kafli.

Um stjórn F.V.F.Í. og störf hennar.

17. gr.

Stjórn F.V.F.Í. skipa 5 félagsmenn: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Varastjórn skipa 2 menn. Kjörtímabil stjórnar er 1 ár og skal hún kosin á aðalfundi. Kosningar skulu fara fram skriflega og/eða rafrænt samkvæmt verklagsreglum rafrænna kosninga F.V.F.Í. og skal þá fyrst kosinn formaður, þá varaformaður, síðan gjaldkeri, að lokum þeir 2 stjórnarmenn sem eftir eru. Skulu þeir skipta með sér verkum, eigi síðar en á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Að síðustu skal kjósa 2 varamenn í stjórn. 
Framboðum skal skila til skrifstofu F.V.F.Í. skriflega eigi síðar en 3 dögum fyrir aðalfund. 

18. gr. 

Stjórn F.V.F.Í. hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli funda. Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum F.V.F.Í. og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er snúa að fjármálum F.V.F.Í. Stjórn skal sjá svo um að fjármál séu jafnan í góðu horfi svo sem bókhald og meðferð fjármuna, og setur í því skyni sérstakar verklagsreglur vegna bókhalds F.V.F.Í.
Stjórninni er skylt að varðveita þau gögn er varða F.V.F.Í. eða störf þess. Fyrir aðalfund ár hvert skal stjórnin semja skýrslu um störf sín og framkvæmdir í F.V.F.Í. á starfsárinu og birta hana öllum félagsmönnum.

19. gr.

Formaður er forseti stjórnarinnar og hefur eftirlit með því að stjórnarmeðlimir sinni skyldum sínum. Hann kallar saman stjórnarfundi, er honum finnst þörf á eða annar stjórnarmaður óskar þess, og stýrir þeim. Stjórnarfundur er lögmætur þegar 5 stjórnarmenn sækja fund. Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans. Í forföllum annarra stjórnarmanna skal viðkomandi óska eftir varastjórnarmanni í sinn stað. Við meðferð einstakra mála skal stjórnarmaður víkja sæti ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni F.V.F.Í.

20. gr.

Ritari skal rita fundargerð um það sem gerist á stjórnarfundum, öll mál sem þar ber á góma, allar tillögur er fram koma, úrslit í hverju máli o.s.frv. Fundargerð síðasta stjórnarfundar skal lesin upp í byrjun næsta stjórnarfundar og þá samþykkt. Þó skal ritara heimilt að senda stjórnarmönnum til yfirlestrar á milli stjórnarfunda drög að fundargerð síðasta stjórnarfundar á rafrænu formi, sem síðan skal tekin til afgreiðslu við upphaf næsta stjórnarfundar á eftir.  

Ritari skal halda gerðarbók yfir það sem gerist á félagsfundum og rita í hana stutta og greinilega skýrslu um málefni þau sem rædd eru á fundum F.V.F.Í. og úrslit þeirra. Undir fundargerðina skulu rita fundarritari og formaður. Fundargerðin skal lesin upp í upphafi næsta fundar. Fundargerðin er full sönnun þess sem fram hefur farið á fundinum. Ritari sér um bréfaskriftir fyrir stjórnina, birtir félagsmönnum bréf og tilkynningar, o.s.frv. 

21. gr.

Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með sjóðum, fjárreiðum og bókfærslu F.V.F.Í. samkvæmt Verklagsreglum bókhalds F.V.F.Í.  

22. gr.

Stjórnin hefur með höndum sjóði F.V.F.Í. og aðrar eignir, sem ávaxtast á þann hátt er aðalfundur ákveður.

23. gr.

Formaður skal, að beiðni gjaldkera, úrskurða um hvort reikningar viðkoma rekstri F.V.F.Í.

24. gr.

Trúnaðarráð skal gera tillögu um atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun. Í trúnaðarráði eiga sæti stjórn F.V.F.Í. og fjórir fullgildir félagsmenn, kosnir til tveggja ára í senn á aðalfundi F.V.F.Í. Í forföllum stjórnarmanna taka varastjórnarmenn sæti í trúnaðarráði fyrir stjórnarmenn, en aðalfundur kýs fjóra varamenn af sinni hálfu. Trúnaðarráðsfundur er lögmætur ef meirihluti meðlima þess er mættur. Formaður F.V.F.Í. skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari F.V.F.Í. ritari þess. Formaður kveður það til fundar með þeim hætti er hann telur heppilegastan. Formaður getur í nafni stjórnar F.V.F.Í. kallað saman meðlimi trúnaðarráðs, þegar önnur aðkallandi málber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi. Ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála á slíkum fundum. Ákvarðanir slíkra funda skulu færast í fundargerð og bornar undir álit næsta félagsfundar. 

25. gr.

Stjórninni er skylt að aðstoða atvinnulausa félagsmenn í atvinnuleit.

IV. Kafli.

Félags- og aðalfundir.

26. gr.

Stjórn F.V.F.Í. kallar saman félagsfund þegar hún telur ástæðu til eða ef 20 félagsmenn óska þess og geta um ástæðu. Þó skulu fundir ekki vera færri en 3 á árinu. 

27. gr.

Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málefnum F.V.F.Í. með þeim takmörkunum sem lögin sjálf setja. Afl atkvæða ræður úrslitum, nema öðruvísi sé kveðið á í lögum.

28. gr.

Félagsfundi skal boða þannig að líklegt sé að fundarboðið hafi borist viðtakanda tveim dögum fyrir fund. Heimilt er að boða til fundar með fundarboði á heimasíðu félagsins, rafrænt í gegnum snjallforrit félagsins, eða með tilkynningum frá trúnaðarmönnum sem deilt er á vinnustöðum. Fundir eru lögmætir ef löglega er til þeirra boðað og minnst 20 fullgildir félagsmenn eru mættir, þar af meirihluti stjórnar. Nú reynist of lítil þátttaka, þó löglega hafi verið til fundarins boðað og skal stjórnin þá auglýsa fund í annað sinn. Er sá fundur lögmætur, hversu fáir sem mæta. Ekki skal þó taka fyrir á slíkum fundi önnur mál en ræða átti á fundi þeim, sem fórst fyrir, nema fundarsókn reynist lögmæt samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laganna.
29. gr.

Aðalfund skal halda fyrir lok apríl ár hvert. 
a)    Aðalfundi skal boða þannig að líklegt sé að fundarboðið hafi borist viðtakanda 14 dögum fyrir fund. 
b)    Tekið skal fram í fundarboði hvenær tillögur til lagabreytinga skulu vera komnar fram.
c)    Heimilt er að boða til aðalfundar bréflega og/eða rafrænt.

30. gr.

Viku fyrir aðalfund skal stjórn F.V.F.Í.: 
a)    Leggja fram félagsmönnum til sýnis endurskoðaða ársreikninga sjóða á skrifstofu F.V.F.Í. eða rafrænt á heimasíðu félagsins. 
b)    Gera tillögur að lagabreytingum aðgengilegar félagsmönnum á heimasíðu F.V.F.Í.

31. gr.

Á aðalfundi skulu þessi mál tekin fyrir: 
a)    Stjórnin gerir grein fyrir störfum sínum á liðnu starfsári. 
b)    Endurskoðaðir reikningar sjóða F.V.F.Í. fyrir liðið starfsár lagðir fram til samþykktar.
c)    Lagabreytingar, ef tillögur liggja fyrir.
d)    Kosning stjórnar og varastjórnar samkvæmt framboðslista 17. gr. laga þessara. 
e)    Kosning trúnaðarráðs, sbr. 24. gr. laga þessara. 
f)    Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur mál svo og breytingartillögur, sem löglega hafa verið borin upp á fundinum. Formaður hefur heimild til að vísa slíkum ákvörðunum til félagsfundar og seinni atkvæðagreiðslu og gildir þá niðurstaða seinni atkvæðagreiðslu, enda hafi þá stjórn og félagsmenn tækifæri til að kynna sér málið betur. 
Enginn hefur atkvæðisrétt á fundinum, nema hann sé sannanlega skuldlaus við félagið samanborið þó við 13 gr.

32. gr.

Formaður er jafnframt fundarstjóri, nema hann óski þess sjálfur að annar stýri fundi og skal hann þá tilnefna annan í sinn stað, er síðan stjórnar fundi. Hver fundarmaður hefur eitt atkvæði. Skrifleg umboð til þess að fara með atkvæði eru ekki tekin gild.

33. gr.

Tilkynna skal félagsmönnum bréflega, ef þeir eru kosnir til þess að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið.

34. gr.

Um meðferð mála á fundum fer eftir fundarsköpum F.V.F.Í.

V. Kafli.

Um innheimtu gjalda o.fl.

35. gr.

Félagsgjald hvers félagsmanns skal vera samkvæmt kjarasamningi F.V.F.Í. við viðkomandi vinnuveitanda og greiðist mánaðarlega í hlutfalli við heildarlaun hvers mánaðar. Sjálfstætt starfandi verktakar greiða hlutfallslega samkvæmt aðalkjarasamningi F.V.F.Í.

36. gr.

Vinnuveitanda skal skylt að halda eftir af launum félagsmanns iðgjaldi til F.V.F.Í. og standa skil á því til F.V.F.Í. í samræmi við lög um starfskjör launafólks og ákvæði kjarasamninga. Ákveða má í kjarasamningi eða á annan hátt að vinnuveitandi greiði félagsgjald félagsmanns að hluta til eða að öllu leyti.

37. gr.

Tekjur félagsins skulu notaðar til greiðslu almenns rekstrarkostnaðar samkvæmt ákvörðun félagsfunda eða stjórnar.  Allar verulegar ráðstafanir á eignum félagsins skulu samþykktar á félagsfundi.

38. gr.

Stjórn F.V.F.Í. er heimilt að gefa eftir félagsgjald fyrir þann tíma sem viðkomandi er frá störfum vegna: 
a)    Sé félagsmaður frá störfum umfram þrjá mánuði vegna veikinda.
b)    Sé félagsmaður atvinnulaus. 
c)    Stundi félagsmaður nám. 
d)    Sé félagsmaður yfir 67 ára og starfi ekki lengur við iðngreinina  
39. gr.

Löggiltur endurskoðandi skal árlega fenginn til að endurskoða ársreikninga sjóða F.V.F.Í.

40. gr.

Reikningsár F.V.F.Í. er almanaksárið.

VI. Kafli. 

Lagabreytingar.

41. gr.

a)    Lögum þessum má ekki breyta, úr þeim fella né við þau auka nema á lögmætum aðalfundi. Heimilt er þó á aðalfundi að vísa lagabreytingum til allsherjaratkvæðagreiðslu. 
b)    Tillögur til lagabreytinga skulu vera undirritaðar af minnst 5 fullgildum félagsmönnum.
c)    Telji trúnaðarráð knýjandi nauðsyn að breyta lögum F.V.F.Í. á öðrum tíma, er það heimilt með allsherjaratkvæðagreiðslu og að öðru leyti er fyrr getur í þessari grein. 
d)    d)Breytingar ná því aðeins gildi að þær séu samþykktar með 2/3 greiddra atkvæða. Lagabreytingar skulu lagðar fram fjölritaðar, er atkvæðagreiðsla um þær fer fram. 
e)    Allsherjaratkvæðagreiðsla samkvæmt liðum a) og c) skal fara fram skriflega og/eða rafrænt samkvæmt verklagsreglum rafrænna kosninga F.V.F.Í.  
f)    Breytingar á lögum taka gildi við samþykkt samkvæmt lið d).

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi F.V.F.I þann 29. apríl 2021

 

 

 

 

 

 

Fundarsköp Flugvirkjafélags Íslands 

 

    1.Skyldur og völd formanns 

Það er skylda formanns að gæta góðrar reglu og stjórna svo meðferð mála, sem fyrir félaginu liggja, að þau geti sem greiðlegast náð heppilegum úrslitum. Hann skal leggja fram fyrir félagið hverja þá tillögu, sem á réttan hátt er fram komin og gefa mönnum kost á að taka til máls um hana. Að loknum umræðum eða ef enginn óskar eftir að taka til máls, skal hann bera málið undir atkvæði og má þá enginn framar taka til máls um það. 

 

    2.Tillögur 

Enga tillögu má taka til umræðu fyrr en hún hefur verið studd af einhverjum félagsmanni og fundarstjóri hefur lesið hana upp. Allar tillögur skulu vera skriflegar. Nú fer tillaga fram á að fella eitthvað úr eða bæta einhverju inn í og skal þá fyrst lesa upp grein þá, er breyta skal eins og hún er, síðan skal lesa orðin, sem farið er fram á að fella burt eða bæta inn í og síðan skal lesa upp greinina eins og hún yrði eftir breytinguna. Breytingartillögu skal jafnan bera undir atkvæði á undan aðaltillögu og sé um fjárhæðir að ræða, hefur sú tillaga forgangsrétt, sem hæst er. Séu breytingartillögur fleiri en ein, skal fyrst bera upp þá er síðast kom fram. Nú er beðið um að skipta tillögu sundur og bera hana upp í tvennu lagi skal þá fundurinn skera úr því með atkvæðagreiðslu, hvort það skuli gert. Mál sem frestað hefur verið óákveðið má ekki taka aftur fyrir á sama fundi. 

 

    3.Úrbætur 

Liggi fyrir fundi inntaka nýrra félaga, skal afgreiða það á undan öðrum dagskrárliðum. Þá er félagsmaður vill taka til máls, skal hann standa upp og ávarpa fundarstjóra. Hann skal halda sér við málefni það, sem til umræðu er og forðast allar málalengingar. Nú standa tveir félagsmenn eða fleiri upp samtímis til að biðja sér hljóðs og sker þá fundarstjóri úr hver fyrst skuli taka til máls. Enginn má tala oftar en tvisvar við sömu umræðu sama máls nema flutnings- og framsögumenn máls. Þeir mega tala svo oft sem þeim þurfa þykir. Þó skal félagsmönnum heimilt að taka oftar til máls til að bera af sér ámæli, leiðrétta misskilning eða þess háttar, en ekki má hann tala lengur en 5 mínútur í senn. 

Meðan félagsmaður er að halda ræðu, má enginn taka fram í fyrir honum nema til að biðja formann um leyfi til að koma með skýringar. Nú er félagsmanni leyft að koma með skýringu og má hann þá aðeins skýra misskilning á orðum, en ekki ræða efni málsins. Allt samtal sem ruglað getur þann sem er að tala, eða tálmar fundarstörf, skal talið brot á góðri reglu. Það skal vera regla að leiða ekki mikilsverð mál til lykta á fyrsta fundi sem þau koma fyrir, hafi þeirra ekki verið getið í fundarboði, nema úrskurður málsins þoli ekki bið að skaðlausu. 

 

    4.Atkvæðagreiðsla 

Atkvæðagreiðsla fer fram á þann hátt að hver félagsmaður réttir upp hægri hönd sína, er hann greiðir atkvæði. Fundarstjóri skipar tvo teljara og skýrir sjálfur frá niðurstöðum atkvæðagreiðslu eftir að atkvæða hefur verið leitað með eða á móti. Formanni er heimilt að láta skriflega atkvæðagreiðslu fara fram. Einnig geta þrír fundarmenn krafist skriflegrar atkvæmagreiðslu. 

Fundarsköpum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi Flugvirkjafélags Íslands og þarf 2/3 atkvæða þeirra sem á fundi eru, til þess að samþykkja breytingu. 

 

 

Lög þessi öðlast þegar gildi. 

  

Reykjavík, 20. mars 1969. 

Endurskoðað í janúar 1976. 

Endurskoðað í nóvember 1993.