Reglugerð sjúkrasjóðs

Sjúkrasjóður FVFÍ
 

 

Reglugerð fyrir Sjúkrasjóð Flugvirkjafélags Íslands.

 

1. gr. Nafn og heimili.

1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Flugvirkjafélags Íslands, (skammstafað Sjúkrasjóður FVFÍ).

1.2 Sjúkrasjóður Flugvirkjafélagsins er stofnaður samkvæmt samningi FVFÍ og atvinnurekenda 1950 og starfar með tilvísun til laga nr. 19, 1. maí 1979.

1.3 Sjúkrasjóður Flugvirkjafélags Íslands er eign Flugvirkjafélags Íslands. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr. Verkefni sjóðsins.

2.1  Verkefni sjóðsins er að veita sjóðsfélögum Sjúkrasjóðs flugvirkjafélags Íslands fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa-, og dánartilvikum með þeim takmörkunum sem um greinir í reglugerð þessari. Sjóðsfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins.

2.2  Stjórn sjóðsins er heimilt að verja fé til að stuðla að bættu almennu heilsufari félagsmanna í formi forvarna. Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir þar að lútandi

 

3. gr. Tekjur.

3.1 Tekjur sjóðsins eru skv. 7. gr. laga nr. 19, 1. maí 1979, samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins. Iðgjöld sjóðfélaga sem starfa sjálfstætt og tryggja sér rétt til bóta skulu að lágmarki miðast við 1% af dagvinnukaupi í hæsta launaflokki, og að hámarki miðast við 1% af dagvinnukaupi að viðbættu 33% vaktaálagi samkv. aðalkjarasamningi FVFÍ við vinnuveitendur.

3.2 Vaxtatekjur og annar arður.

3.3 Gjafir, framlög og styrkir.

3.4 Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins kann að ákveða hverju sinni.

 

4. gr. Stjórn og rekstur.

4.1 Stjórn sjóðsins skal skipuð 3 mönnum úr stjórn Flugvirkjafélags Íslands, þ.e. formanni, gjaldkera og meðstjórnanda og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins. Varamenn í stjórn sjúkrasjóðs skulu vera varaformaður og ritari FVFÍ, eða staðgengill þeirra, það er varamenn stjórnar FVFÍ.

4.2 Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv. almennum stjórnsýslulögum.

4.3 Skrifstofa Flugvirkjafélags Íslands annast fjárreiður og hefur umsjón með sjóðnum. Þó skal halda bókhaldi og öllum fjárreiðum aðskildum frá öðrum sjóðum Flugvirkjafélagsins.

4.4 Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins skulu vera skráðar á nafn hvers sjóðfélaga.

4.5 Heimilt er Sjúkrasjóði FVFÍ að eiga fasteign undir starfsemi sína.

 

5. gr. Reikningar og endurskoðun.

5.1 Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund Flugvirkjafélags Íslands til samþykktar.

 

6. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila.

6.1 Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína.

6.2 Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að að leggja fyrir aðalfund í FVFÍ tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

 

7. gr. Ávöxtun og rekstur.

7.1 Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti: a) Í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs. b) Með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum. c) Í bönkum eða sparisjóðum.

 

8. gr. Ráðstöfun fjármuna.

8.1 Ávallt skal þess gætt að ráðstöfun fjármuna sjóðsins brjóti ekki í bága við tilgang hans eða verkefni.

 

9. gr. Grundvöllur styrkveitinga úr sjúkrasjóði.

 

Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

9.1 Einungis þeir sem sannanlega er greitt af til sjóðsins og verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til aðstoðar myndast.

9.2 Rétt til sjúkrastyrks öðlast menn í áföngum með tilliti til uppsafnaðs árafjölda sem sjóðfélagar, svo sem hér greinir: Sjóðfélagagar öðlast fyrst rétt til sjúkrastyrks eftir að hafa verið félagar í samtals eitt ár, og greiðist sjúkrastyrkur hverju sinni að hámarki sem nemur hálfum mánuði fyrir hvern mánuð í uppsafnaðri félagsaðild. Sjúkrastyrkur greiðist þó aldrei lengur en 24 mánuði samfellt.Viðkomandi telst vera sjóðfélagi meðan hann nýtur sjúkrastyrks úr sjóðnum.

9.3 Sjúkdóms og slysaforföll skal sanna með læknisvottorði. Skal það berast stjórn sjóðsins svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en tveimur vikum eftir að umsækjandi um styrk hefur vinnu á ný eftir veikindi. Styrkur skal þó aldrei greiddur lengra aftur í tímann en þrjá mánuði reiknað frá þeim tíma er umsókn og læknisvottorð bárust sjóðnum.

 

10. gr. Geymd réttindi.

10.1 Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á vinnumarkaði, endurnýjaðan bótarétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðfélagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna barnsburðar, veikinda eða af heimilisástæðum.

 

11. gr. Styrkveitingar.

11.1 Bótaflokkar sjóðsins eru:

11.1.1 Sjúkra- og slysadagpeningar. Sjóðurinn greiðir sjúkra- og slysadagpeninga ef launatekjur sjóðfélaga falla niður sökum veikinda eða slysa. Greiðslur til sjálfstætt starfandi flugvirkja eru inntar af hendi sem um launþega væri að ræða, sbr. lög nr. 19, 1. maí 1979. Biðtími til bótaréttar vegna sjálfstætt starfandi flugvirkja skal vera 3 mánuðir. Dagpeningar skulu vera grunnlaun viðkomandi, að teknu tilliti til meðaltals síðustu 12 mánaða og greiðast í samræmi við starfshlutfall viðkomandi og skulu dagpeningar greiddir að hámarki í 24 mánuði á 48 mánaða tímabili, en þó aldrei lengur en veikindi eða óvinnufærni varir. Verði sjóðfélagi fyrir örorku sem telja verður varanlega er sjóðstjórn heimilt að greiða bætur skv. þessari málsgr. sem örorkubætur, er koma þá í stað dánarbóta. Dagpeningar til sjálfstætt starfandi sjóðfélaga skulu aldrei miðast við hærri laun en viðmiðunarlaun sem sjúkrasjóðsiðgjald reiknast af, miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða. Þurfi sjóðfélagi að taka sér launalaust frí meira en eina viku, vegna veikinda maka skal hann eiga rétt á sjúkrastyrk eins og hann væri sjálfur veikur, í allt að 6 mánuði, sem endurnýjast að 12 mánuðum liðnum.

11.1.2 Nú andast sjóðfélagi og skal sjóðurinn þá greiða styrk til eftirlifandi maka en ella til barna, sé maka ekki til að dreifa. Skal styrkurinn nema kr. 2.340.000 til maka en styrkur til barna sem voru á framfæri hins látna og sem eru yngri en 19 ára á dánardægri, skal vera kr. 468.000 á hvert barn. Fjárhæðir eru miðaðar við vísitölu neysluverðs hinn 1. ágúst 1997 og skulu hækka í samræmi við hækkun vísitölunnar. Til maka telst sambýlingur hafi sambúðin gildi samkvæmt skilgreiningu laga um almannatryggingar. Andist maki sjóðfélaga skal honum greiddur styrkur er samsvarar þreföldum mánaðalaunum, hæsta launastiga FVFÍ á hverjum tíma.

11.2 Sá sem fullnýtt hefur rétt sinn til sjúkradagpeninga ávinnur sér rétt að nýju þegar hann hefur aftur hafið starf hjá atvinnurekanda og greitt til sjóðsins í 12 mánuði samfleytt.

11.3 Stjórn sjóðsins er heimilt að styrkja sjóðfélaga, maka þeirra og börn er kunna að þurfa að sækja sér lækningar erlendis, sem ekki er hægt að framkvæma hér á landi.

11.4 Sjúkrasjóður FVFÍ greiðir útfararstyrk sjóðfélaga og maka allt að kr. 350.000 skv. reikningi. Sama gildir um fyrrverandi sjóðfélaga sem greitt hafa meira en 20 ár í sjóðinn. Fjárhæðir eru miðaðar við vísitölu neysluverðs hinn 25 apríl 2008 og skulu hækka í samræmi við hækkun vísitölunnar.

11.5  Ef sjóðsfélagi á við langvarandi veikindi að etja, eða verði hann fyrir alvarlegu slysi eða áfalli og stjórn sjóðsins metur honum það til fjárhagslegs tjóns, er heimilt að veita viðkomandi sérstakan styrk.

11.6 Ákvörðunum stjórnar sjúkrasjóðs er heimilt að skjóta til úrskurðar félagsfundar FVFÍ. Til að ákvörðun stjórnar verði breytt þarf samþykki 2/3 hluta atkvæða á félagsfundinum.

 

12. gr. Lausn frá greiðsluskyldu.

12.1 Ef farsóttir geisa getur sjóðstjórnin leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðstjórn ákveðið að lækka upphæð dagpeninga og styrkja ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin að mati tryggingafræðings.

 

13. gr. Tilhögun greiðslna úr sjóðnum.

13.1 Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu Flugvirkjafélagsins og greiðir sjóðurinn allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.
13.2 Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrirkomulag á greiðslu dagpeninga og aðra starfstilhögun.

13.3 Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu hafa að leiðarljósi almennar stjórnsýslureglur um meðferð upplýsinga um umsóknir og afgreiðslu sjóðsins.

13.4 Umsóknum skal skilað á því formi sem stjórn sjóðsins ákveður og þeim fylgi nauðsynleg vottorð sem tryggja réttmæti greiðslna.

13.5 Sjúkrasjóður Flugvirkjafélags Íslands skal hafa starfandi trúnaðarlækni.

 

14. gr. Fyrning bótaréttar.

14.1 Réttur til bóta eða styrkja úr sjúkrasjóði skv. reglugerð þessari fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að rétturinn stofnast.

 

15. gr. Endurgreiðsla iðgjalda.

15.1 Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki. Þó er stjórn sjóðsins heimilt að ráðstafa fjárhæð sem samsvarar þeim hluta framlags og (iðgjalda) sem er umfram 1% sbr. gr. 3 1 til viðurkennds séreignalífeyrissjóðs í nafni viðkomandi sjóðsfélaga.

 

16.gr. Upplýsingaskylda.

16.1 Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðfélaga um rétt þeirra til aðstoðar sjóðsins með útgáfu bæklinga eða dreifirita.

 

17.gr. Breytingar á reglugerðinni.

17.1 Einungis félagsmenn sem greitt er af til sjúkrasjóðsins hafa atkvæðisrétt í málefnum hans. Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á tveimur félagsfundum í röð þar sem sérstaklega er tekið fram í fundarboðum að málefni sjúkrasjóðs séu á dagskrá og skal meginefni tillögunnar getið.


 

Breytingar samþykktar 16. Október 2008

3.1 Tekjur sjóðsins eru skv. 7. gr. laga nr. 19, 1. maí 1979, samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins. Iðgjöld sjóðfélaga sem starfa sjálfstætt og tryggja sér rétt til bóta skulu að lágmarki miðast við 1% af dagvinnukaupi í hæsta launaflokki samkv. aðalkjarasamningi FVFÍ við vinnuveitendur.

Verði eftir breytingu svohljóðandi:

3.1 Tekjur sjóðsins eru skv. 7. gr. laga nr. 19, 1. maí 1979, samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins. Iðgjöld sjóðfélaga sem starfa sjálfstætt og tryggja sér rétt til bóta skulu að lágmarki miðast við 1% af dagvinnukaupi í hæsta launaflokki, og að hámarki miðast við 1% af dagvinnukaupi að viðbættu 33% vaktaálagi samkv. aðalkjarasamningi FVFÍ við vinnuveitendur.

4.1 Stjórn sjóðsins skal skipuð 3 mönnum úr stjórn Flugvirkjafélags Íslands, þ.e. formanni, gjaldkera og meðstjórnanda og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins.

Verði eftir breytingu svohljóðandi:

4.1 Stjórn sjóðsins skal skipuð 3 mönnum úr stjórn Flugvirkjafélags Íslands, þ.e. formanni, gjaldkera og meðstjórnanda og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins. Varamenn í stjórn sjúkrasjóðs skulu vera varaformaður og ritari FVFÍ, eða staðgengill þeirra, það er varamenn stjórnar FVFÍ.

11.4 Sjúkrasjóður FVFÍ greiðir útfararstyrk sjóðfélaga og maka allt að kr. 350.000 skv. reikningi. Sama gildir um fyrrverandi sjóðfélaga sem greitt hafa meira en 20 ár í sjóðinn.

Verði eftir breytingu svohljóðandi:

11.4 Sjúkrasjóður FVFÍ greiðir útfararstyrk sjóðfélaga og maka allt að kr. 350.000 skv. reikningi. Sama gildir um fyrrverandi sjóðfélaga sem greitt hafa meira en 20 ár í sjóðinn. Fjárhæðir eru miðaðar við vísitölu neysluverðs hinn 25 apríl 2008 og skulu hækka í samræmi við hækkun vísitölunnar.


Breytingar samþykktar 5. Október 2011

Grein 11.5 verður að grein 11.6 og grein 11.5 verði svohljóðandi:

11.5 Ef sjóðsfélagi á við langvarandi veikindi að etja, eða verði hann fyrir alvarlegu slysi eða áfalli og stjórn sjóðsins metur honum það til fjárhagslegs tjóns, er heimilt að veita viðkomandi sérstakan styrk.

2.1 Verkefni sjóðsins er að veita sjóðsfélögum Sjúkrasjóðs flugvirkjafélags Íslands fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa-, og dánartilvikum með þeim takmörkunum sem um greinir í reglugerð þessari. Sjóðsfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins.

Við bætist grein 2.

2.2 Stjórn sjóðsins er heimilt að verja fé til að stuðla að bættu almennu heilsufari félagsmanna í formi forvarna. Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir þar að lútandi


Reglugerð þessi tekur gildi þegar í stað. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð 30. nóvember 1993, samanber þó viðauka sem samþykktur er á félagsfundi 22. nóvember 1997.