Fyrstu lög félagsins

 

FYRSTU LÖG FÉLAGSINS

 

Fyrstu lög félagsins frá 1947.

 
Lög fyrir Flugvirkjafélag Íslands.
1.gr. Félagið heitir Flugvirkjafélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2.gr. Tilgangur félagsins er að vernda hagsmuni íslenskra flugvirkja, efla góða samvinnu þeirra, vinna að bættum kjörum, réttindum og vinnuskilyrðum.
3.gr. Félagsmenn geta orðið allir þeir sem hafa að atvinnu viðhald og viðgerðir flugvéla og hafa stundað í 3 ár eða lengur og þeir sem lokið hafa prófi í flugvirkjun erlendis eða menn sem unnið hafa 2 ár hér heima og lokið hafa prófi í flugvirkjun.
4.gr. Sá sem vill ganga í félagið skal senda um það skriflega beiðni til stjórnar þess og skal hún innan viku hafa skorið úr því hvort umsækjanda verði veitt upptaka í félagið. Nú synjar stjórnin inntökubeiðni og á þá umsækjandi rétt til að krefjast þess að málið verði borið undir næsta félags fund og sker sá fundur úr um málið.
5.gr. Nú hefur umsækjandi verið samþykktur sem félagi og skal hann þá undirrita skuldbindingu um það að hann vilji hlýða lögum þess og reglum og telst hann þá fisrt löglegur félagi. Hver umsækjandi greiði kr. 25,00 í inntökugjald til félagsins.
6.gr. Félagsmenn geta sagt sig úr félaginu eftir eigin ósk og skulu þeir þá vera skuldlausir við félagið. Jafnframt skuldbindi þeir sig til að vinna ekki að sömu iðn áfram.
7.gr. Komist félagsmaður í skuld við félagið þá er stjórninni heimilt að leggja á hann vinnubann uns hann hefur greitt skuld sína eða borið fram afsökun sem stjórnin tekur gilda.
8.gr. Stjórn félagsins skipa 3 menn, formaður, ritari og gjaldkeri kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Kosningar skulu fara fram skriflega og skal fyrst kosinn formaður þá ritari og síðast gjaldkeri. Varastjórn skipuð 3 mönnum skal kosin á sama hátt.
9.gr. Allir félagsmenn geta hlotið kosningu í stjórn félagsins eða önnur ábyrgðarstörf þess nema verkstjórar og þeir sem eru atvinnurekendur í iðninni.
10.gr. Félagsfundur er lögmætur og ályktunarfær ef löglega er til hans boðað eða með auglýsingu eða bréflega án tillits til þess hve margir eru mættir. Til félagsfunda skal boða með viku fyrirvara og er lögleg til hans boðað ef bréf er sett á pósthúsið eða auglýsing birt fyrir þann tíma. Í fundarboði skal geta fundarefnis.
11.gr. Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lögin sjálf setja. Afl atkvæða ræður úrslitum nema öðruvísi sé ákveðið í lögunum.
12.gr. Félagsmenn skuldbinda sig til að vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum í iðninni eða réttindalausum nema félagið hafi veitt undanþágu til þess.
13.gr. Tveir endurskoðendur sem kosnir eru til eins árs í senn á aðalfundi skulu rannsaka reikninga félagsins og gera viðþá athugasemdir sínar.
14.gr. Fyrir 10. janúar ár hvert skal gjaldkeri hafa lokið reikningsskilum til endurskoðenda og þeir gert athugasemdir sínar fyrir aðalfund.
15.gr. Hver félagsmaður greiðir félaginu mánaðartillag kr. 10,00. Tillagið skal greitt gjaldkera fyrir 10. hvers mánaðar. Stjórnin hefur með höndum sjóði félagsins og aðrar eignir sem ávaxtast á þann hátt sem aðalfundur ákveður.
16.gr. Aðalfundur skal haldinn í janúar ár hvert.Aukafundi skal halda, stjórninni þykir við þurfa eða þegar minnst 5 félagsmenn krefjast þess skriflega og tilkynna fundarefni. Ber þá stjórninni að halda fundinn eigi síðar enn hálfum mánuði eftir að hún fékk kröfu um það.
17.gr. Stjórninni ber að boða fundi með fundarboði sem nær til allra félagsmanna. Í fundarboði skal geta fundarefnis og verða ekki önnur mál rædd á þeim fundi nema til komi samþykki 2/3 fundarmanna um afbrigði frá lögunum. Stjórn félagsins er heimilt að boða til skyndifundar ef brýn nauðsyn krefur með 24 klst. Fyrirvara minnst.
18.gr. Formaður er jafnframt fundarstjóri nema hann óski þess sjálfur að annar stýri fundi og skal hann þá tilnefna annan í sinn stað. Hver fundarmaður hefur eitt atkvæði en heimilt er utanbæjarmönnum að veita félagsmönnum skriflegt umboð til að fara með atkvæði sín og ber þá að sýna formanni það.
19.gr. Halda skal gjörðabók yfir það sem gerist á félagsfundum og rita í hana stutta skýrslu um málefni þau sem rædd eru á fundinum og úrslit þeirra. Undir fundargerðir skulu rita fundarritari og fundarstjóri og fundargerðin lesin upp í fundarlok og fyrst á næsta fundi. Fundargerðin er full sönnun þess sem gerst hefur á fundinum.
20.gr. Stofna skal sérstaka deild innan félagsins fyrir menn sem ekki fylla þau skilyrði sem sett eru fyrir inntöku fullgildra félagsmanna, skulu þeir vera háðir sérstakri reglugerð er samin verði í samráði við þá og í samræmi við afstöðu þeirra gagnvart félaginu. Í reglugerð þeirri skulu ákveðin gjöld þeirra svo og ákvæði er tryggir réttindi þeirra gagnvart félaginu enda sé hagsmuna þeirra gætt engu síður en fullgildra félagsmanna. Á félagsfundum hafa framangreindir menn málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema í málum þeirra, er þá sérstaklega varða samkvæmt því sem væntanleg reglugerð ákveður.
21.gr. Á aðalfundi skulu þessi mál tekin fyrir. 1. Stjórn félagsins skýrir frá hag þess og framkvæmdum á liðnu ári. 2. Endurskoðaður reikningur fyrir síðastliðið ár með athugasemdum endurskoðenda er lagður fram til úrskurðar. 3. Ákvörðun tekin um það hvernig ávaxta skuli sjóði félagsins. 4. Kostning stjórnar, varamanna og endurskoðenda. 5. Umræður um önnur mál sem löglega hafa verið borin upp á fundinum.
22.gr. Ekki verður lögum félagsins breytt nema á aðalfundi þar sem mættir eru minnst 2/3 félagsmanna og sé lagabreytingin samþykkt með að minnsta kosti 2/3 greiddra atkvæða. Mæti eigi nógu margir á fundi skal boða aftur til fundar innan eins mánaðar og geta þess sérstaklega í fundarboði að síðasti fundur hafi ekki verið ályktunarfær og nær þá lagabryetingin fram að ganga á þeim fundi ef 2/3 greiddra atkvæða eru með því án tillits til þess hve margir sækja fundinn.
23.gr. Gerist félagsmaður brotlegur við lög félagsins er stjórninni heimilt að leggja á hann vinnubann. Málið skal þó lagt fyrir næsta fund og hefur hann fullnaðar úrskurð í málinu.
24.gr. Reikningsár félagsins er almanaks árið.
25.gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
  Reykjavík ?.janúar 1947.
 
Reglugerð fyrir nemendadeild samkvæmt 20.gr.laga Flugvirkjafélags Íslands.
1.gr. Meðlimir deildarinnar geta allir þeir orðið sem ráðnir eru við viðhald og viðgerð flugvéla og ekki uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í 3 gr. Félagslaganna.
2.gr. Inntökugjald flugvirkjanema skal vera kr. 10,00 og mánaðargjald kr.5,00 sem greiðist fyrir 10. hvers mánaðar.
3.gr. Sá sem inntöku óskar skal senda um það skriflega beiðni til stjórnar Flugvirkjafélags Íslands og skal hún innan viku hafa skorið úr því hvort hún synjar henni eða ekki. Nú synjar stjórnin inntökubeiðni og þá á umsækjandi rétt til að krefjast þess að málið verði borið undir næsta fund og sker sá fundur úr um málið.
4.gr. Nú hefur umsækjandi verið samþykktur sem félagi og skal hann þá undirrita skuldbindingu um það að hann vilji hlýða lögum þess og reglum og telst hann þá fyrst löglegur félagi.
5.gr. Félagsmenn geta sagt sig úr félaginu eftir eigin ósk og skulu þeir þá vera skuldlausir við félagið.Jafnframt skuldbindi þeir sig til að vinna ekki við sömu iðn áfram.
6.gr. Komist félagsmaður í skuldir við félagið er heimilt að stöðva hann við vinnu ef hann hefur ekki greitt gjöld sín í þrjá mánuði eða lengur nema um gilda ástæðu sé að ræða.
7.gr. Félagsmenn skuldbinda sig til að vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum í iðninni nema félagið hafi veitt undanþágu til þess.